Grillaður þorskhnakki á spjóti

Grillaður þorskhnakki með halloumi osti og ólífum

 • Servings: 4 - 5
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Í góða veðrinu í sumar hefur mikið verið grillað og þá aðallega kjöt.  Um daginn langaði mig til að grilla fisk enda alltaf að verða meiri og meiri fiskikona. Setti þorskhnakka í smá lög og lét hann standa í nokkrar klukkustundir.  Eiginmaðurinn fékk grind fyrir pinna til að setja á grillið í afmælisgjöf og alveg gráupplagt að grilla fiskinn þannig. Hann festist þá ekki á sjálfu grillinu.  Glimrandi góður fiskréttur og léttur í maga. Ef dagurinn á að vera sérstaklega léttur er bara boðið upp á salat með fiskinum.  En ef á að gera vel við sig er Frábært kúskús – gott meðlæti og heimagert Hvítlauksmajónes æði – allt saman.   Kosturinn er að hægt er að útbúa allt meðlæti fyrirfram og þræða upp á spjótin….þá er bara eftir að grilla fiskinn og veislan er klár.

 

Hráefni

 • 800 g þorskhnakki eða annar fiskur
 • 1 pakki (250 g) halloumi ostur – má sleppa
 • Grænar ólífur – ein á hvert stjót

Lögur

 • 3 – 5 msk fersk mynta (má einnig blanda með steinselju) – söxuð
 • ½ rauður chilipipar – fræhreinsaður og saxaður smátt
 • 2 msk engifer – rifið
 • 2½ – 3 msk fiskisósa
 • 2 msk olía
 • Sítrónubörkur af einni lífrænni sítrónu – rifinn
 • Salt og pipar

 

Verklýsing

 1. Fiskurinn er skorinn niður í  3 – 4 cm þykka bita og sama er gert við halloumi ostinn
 2. Hráefnið í löginn er sett í skál og fiskbitarnir ofan í – látið vera um stund
 3. Fiskbitum, ólífu og halloumi osti þrætt upp á grillpinna – yfirleitt set ég 2 fiskbita, 1 halloumibita og 1 ólífu á hvert spjót en það má auðvitað gera eins og hver og einn vill
 4. Grillið hitað og fiskurinn grillaður í u.þ.b. 3 mínútur á hvorri hlið.  Eins og kom fram fyrir ofan set ég fiskispjótin á þar til gerða grind og liggur fiskurinn því ekki á grillinu sjálfu

Í vinnslu

Pinnar settir á bakkann

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*