Marineruð lambaspjót – tilvalið í veisluna

Marineruð lambaspjót með rauðbeðupestói

  • Servings: /Magn: 20 smáspjót
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Ég fékk hugmyndina að uppskriftinni í sænsku blaði. Ekki var hægt að fá allt hráefnið hér þannig að ég þurfti að breyta henni.  Ég er vön setja kjöt fyrst í marineringu og steikja það síðan en hér er farið öfugt að og gerir það þennan rétt aðeins öðruvísi.  Rauðbeðupestóið kemur skemmtilega á óvart – það er glimrandi gott og á vel við með kjötinu.  Þennan rétt má búa til töluvert áður og því sérstaklega þægilegur.  Mæli með honum sem forrétti eða smárétti í veisluna.

 

Hráefni

Kjöt

  • 1,2 kg kindalundir/kindafile
  • Salt
  • Pipar
  • ¾ dl olía
  • 4 msk sojasósa
  • Safi úr einni sítrónu
  • 4 stk hvítlauksrif – pressuð
  • 1 dl ferskt oregano og/eða timjan – saxað
  • 1 dl ferskt dill – saxað (má nota 1 msk þurrkað dill í staðinn)

 

Skreyting

  • Sítrónur
  • Kryddjurtir
  • Möndlur – gróflega saxaðar

 

Rauðbeðupestó

  • 450 – 500 g soðnar rauðbeður (kaldar)
  • 100 g möndlur
  • 2 hvítlauksrif – söxuð
  • Rúmlega 4 dl ísbúi – rifinn fínt
  • 2 msk sítrónusafi
  • 2½ dl olía
  • Salt
  • Pipar

Verklýsing

Kjöt

  1. Kjötið skorið í litla bita rúmlega 2½ x 2½ cm. (hver biti er 20 – 25 g). Kjötið sett á litla pinna u.þ.b. 3 bita á hvern (ágætt að leggja pinnana aðeins í bleyti áður ef notaðir eru trépinnar). Saltað og piprað
  2. Grillið/pannan hitað. Kjötið grillað úti (eða á pönnu)  í u.þ.b. 1½ mínútu á hvorri hlið.  Fyrir þá sem vilja hafa kjötið mikið steikt þarf eflaust að bæta 1 mínútu við á hvorri hlið
  3. Olía, soja, sítrónusafi, hvítlaukur og kryddjurtir blandað saman
  4. Kjötið sett í fat ásamt marineringunni (pensla yfir kjötið) og látið liggja í nokkra klukkutímtíma (við stofuhita).  Ágætt að snúa kjötinu við einu sinni eða tvisvar

 

Rauðbeðupestó

  1. Rauðbeðurnar soðnar eða settar inn í 200°C heitan ofn og bakaðar í 1 klukkustund – ef rauðbeðurnar eru stórar má skera þær í tvennt og láta skurðarhliðina snúa niður.  Látið kólna – ágætt að gera þetta daginn áður
  2. Rauðbeðurnar afýddar og skornar í litla bita, möndlur grófsaxaðar og hvítlaukur saxaður – sett í matvinnsluvél 
  3. Ísbúanum (fínrifnum), olíu og sítrónusafa blandað saman við með sleikju — saltað og piprað

Framsetning

Rauðbeðupestóið lagt á fat eða á forréttardiska.  Kjötspjótin tekin úr marinerngunni og lögð ofan á pestóið.  Skreytt með fersku oregano og/eða timjan.  Fallegt að punta með sítrónusneið og möndlubitum

 

Rauðbeður bakaðar

 

Snittur með marineruðu kindafile og rauðbeðupestói – frábært í veisluborðið

Uppskriftin er að öllu leyti eins nema að það þarf ekki að skera file- eða lundirnar í bita.  Best er að heilsteikja þær. Gott er að láta lundirnar jafna sig eftir steikingu áður þær eru skornar í þunnar sneiðar.  Snittubrauð skorið í sneiðar og þær þurrristaðar á pönnu.  Sneiðar af kjöti sett á snittubrauðið ásamt rauðbeðupestói og skreytt með ferskum kryddjurtum.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*