Lakkríshrákaka með rifsberjum
Uppruni
Mér finnst gott að eiga hráköku inni í frysti þegar sykurþörfin blossar upp. Þá næ ég mér í sneið, læt hana aðeins þiðna og fæ mér með kaffinu. Það er mikill kostur að kakan uppfyllir sykurþörfina og er auk þess saðsöm. Lakkrís er í uppáhaldi og því þykir mér kakan góð. Lausfryst rifsber úr frystinum eru tilvalin í þessa köku.
Forvinna
Upplagt að búa kökuna til hvenær sem er og eiga í frysti.
Hráefni
Botn
- 100 g valhnetur
- 15 – 16 stk mjúkar döðlur
- ½ tsk salt
- 1 tsk vanilluduft
- ½ dl seasamfræ
- ½ dl svört birkifræ
- 2 tsk lakkrísduft
Fylling
- 5 dl cashewhnetur (eða blanda af cashewhnetum og möndlum)
- 2 dl vatn
- 1 dl kókosolía
- 1 dl hunang
- 1 tsk vanilluduft
- 2 dl rifsber
Efsta lag
- 2 msk svört birkifræ
- 1 msk lakkrísduft
Verklýsing
Botn
- Allt maukað saman í matvinnsluvél
- Maukið sett í u.þ.b. 20 cm botn – bökunarpappír hafður undir. Sett í kæli á meðan fyllingin er búin til
Fylling
- Hneturnar látnar liggja í bleyti (hýðið tekið af möndlunum – betra að setja þær í heitt vatn áður)
- Allt hráefni, nema rifsberin, maukað saman. Hluta af rifsberjunum dreift yfir botninn
- Helmingi af maukinu dreift yfir rifsberin og þar yfir kemur það sem eftir er af þeim. Kakan sett í frysti á meðan efsta lagið er búið til
Efsta lag
- Hráefninu bætt við afganginn af maukinu í matvinnsluvélinni – maukað saman
- Dreift yfir kökuna – gott að nota sleikju þannig að maukið dreifist vel. Plastpoki eða plastfilma sett yfir kökuna og hún látin standa í frysti í a.m.k. nokkrar klukkustundir
- ATH: Mikilvægt að taka kökuna úr frystinum klukkutíma áður en hún er borin fram. Skreytt t.d. með rifsberjum
Botninn
Fyllingin
Efsta lagið