Makkarónusósa

Makkarónusósa

 • Servings: 5 – 6
 • Difficulty: auðvelt
 • Print

Uppruni

Þá er komið að Makkarónusósunni. Ég hélt alltaf að allir borðuðu uppstúf og kartöflur með hangikjötinu á jólunum en það er nú aldeilis ekki þannig. Börnin mín hafa alist upp við makkarónusósu líkt og pabbi þeirra og amma. Þeim finnst hún vera alveg ómissandi en ég held mig enn við uppstúfið. Sólveig, langamma þeirra, bauð alltaf upp á makkarónusósu með hangikjötinu á jóladag forðum. Þá fylgdi sögunni að þetta væri hefð ,,að austan”. Aldrei sást nein uppskrift en nú er hún komin á blað. Ég set hana hér inn fyrir komandi kynslóðir.  Yngri dætur mína hafa aðeins ,,poppað upp” / nútímavætt sósuna með því að panta hana með rauðum, dönskum pylsum hjá ömmu sinni. Þá eru foreldrarnir yfirleitt víðs fjærri!

Hráefni

 • 200 g makkarónur
 • 1 tsk gróft salt
 • U.þ.b. 5 dl nýmjólk
 • Vatn (1 dl) og hveiti (½ dl) – vatn sett fyrst og hveiti svo – hrist saman í hristara
 • 2 tsk sykur – má sleppa

Verklýsing

 1. Makkarónur settar í pott og vatn látið fljóta vel yfir – saltað. Suðan látin koma upp, hitinn lækkaður en látið sjóða þar til makkarónurnar eru orðnar mjúkar og vatnið gufað upp (u.þ.b. 9 mínútur)
 2. Stundum þarf að bæta við vatnið og það þarf einnig að hræra í annað slagið svo að makkarónurnar límist ekki saman. Best að standa við pottinn a.m.k. í byrjun svo að ekki sjóði upp úr
 3. Mjólk hellt í pottinn og er hún látin fljóta vel yfir
 4. Suðan látin koma upp og með sleif í annarri hendi og hveitihristarann í hinni er hellt og hrært í þar kominn er léttur jafningur
 5. Sósan heldur áfram að þykkna í pottinum þannig að ekki má hella of miklu af hristingnum
 6. Nú þarf að smakka sósuna því að þessi sykur í uppskrftinni er líklega bara fyrir þá sem vilja sætu í matinn

Gott með

Hangikjöti og rauðum pylsum.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*