Ostastangir – hreinasta sælgæti

Ostastangir - hreinasta sælgæti

  • Servings: /Magn: u.þ.b. 100 stangir
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessar kökur bakaði mamma mín um hver jól þegar ég var lítil. Ostastangir voru algjörlega ómissandi og þær kláruðust alltaf fyrst þrátt fyrir að vera algjörlega sykurlausar. Eins og með margar útflattar smákökur þá er svolítil vinna að fletja þær út en deigið er meðfærilegt.  Það er alveg þess virði að nýta einn sunnudagseftirmiðdag í að baka þessar kökur.

Vinnsla

Hægt að búa kökurnar til í þremur skrefum:

  1. Deigið hnoðað saman – þarf að standa í kæli yfir nótt
  2. Kökurnar flattar út, skornar og settar á bökunarpappír. Staflað saman í ofnskúffu og geymt í kæli
  3. Kökurnar bakaðar

Hráefni

Deig

  • 375 g hveiti
  • 225 g smjör
  • 300 g ostur- rifinn fínt (Ísbúi eða annar 26% ostur)
  • 3 dl rjómabland – ½ rjómi og ½ mjólk
  • 1½ tsk salt
  • 1 kryddmál hjartarsalt (1 ml)

Ofna á

  • 150 – 250 g rifinn ostur (háð magni sem er sett á)
  • 1 – 2 egg til penslunar

Verklýsing

  1. Allt hráefni hnoðað saman og látið standa í kæli yfir nótt. Ágætt að búa til eina stóra bollu, setja hana á disk og plastfilmu yfir
  2. Deiginu skipt niður í 6 – 8  hluta – gott að hafa deigið, sem ekki er verið að vinna með, sem mest í kælinum. Deigið flatt út – gott að strá hveiti yfir með sigti.  Einnig er gott að nota bökunarpappír til að fletja út á – hafa hann bæði ofan á og undir.  Ekki nauðsynlegt að hafa hann alltaf ofan á – snúa við og losa bökunarpappírinn frá sem var undir. Þetta er gert þar til deigið er orðið mjög þunnt – kökurnar eru betri ef þær eru þunnar
  3. Útflatta deigið skorið niður í langa strimla u.þ.b. 1 – 1½ cm á breidd og síðan í 8 – 12 cm langar ræmur (sjá mynd fyrir neðan). Gott að nota kleinujárn. Ekkert á að þurfa að fara til spillis – allur afskurður er tekinn og hnoðaður saman og settur inn í kæli – til að kólna. Gaman að búa til nokkra hringi (sjá myndir fyrir neðan). Hægt að nota tvö mismunandi stór glös til að móta hringina. Það puntar að bera fram stangirnar innan í hringnum
  4. Strimlarnir settir á bökunarpappír – best að ljúka við að skera út allar kökurnar áður en byrjað er að baka.  Gott að raða kökunum þétt saman svo að sem minnst af rifna ostinum, sem stráð er yfir kökurnar, fari til spillis.  Kökurnar stækka ekki í ofninum
  5. Ofninn hitaður í 180 – 200°C. Hver ræma pensluð með hrærðu eggi og osti stráð yfir
  6. Bakað í 5-10 mínútur (háð þykkt) – stangirnar látnar kólna á grind

Geymsla

Geymist vel í boxi á þurrum stað.  Ef lokið á boxinu er of þétt geta stangirnar linast – þá er ráð að taka lokið af.

IMG_9008 IMG_9007IMG_9006IMG_9004

IMG_9011

IMG_9009

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*