Shepherd’s pæ sem kom skemmtilega á óvart
Uppruni
Það hefur lengi verið á dagskrá að prófa að elda Shepherd´s pæ. Væntingar mínar voru ekki miklar og kom því skemmtilega á óvart hvernig rétturinn smakkaðist. Þessi réttur er kominn á óskalistann hjá heimilisfólkinu. Hef aðeins breytt uppskriftinni, sem var notuð upphaflega, en ég fann hana í gömlum auglýsingabæklingi.
Forvinna
Rétttinn má búa til eitthvað áður og eiga aðeins eftir 13. lið í verklýsingu.
Hráefni
Kartöflumús
- 1 kg kartöflur
- 2 dl matreiðslurjómi
- 50 g smjör
- 1 eggjarauða
- 1 dl rifinn cheddarostur
- Salt og pipar
- Örlítið af múskati
Kjötsósa
- 4 vorlaukar
- 1 msk repjuolía (rapsolía)
- 500 g lambahakk – keypti frosið frá Kjarnafæði í Fjarðarkaupum (gott að láta það þiðna í kæli yfir nótt)
- 2 tómatar
- 2 hvítlauksrif
- 2 msk HP-sósa
- 2 msk Worcestersósa (Worcestershiresauce)
- Salt og pipar
- 1 tsk lambakraftur
- Hægt að bæta við einhverju kryddi eða grænmeti, sem er í uppáhaldi, eins og t.d. rósmarín og gulrótum
Samsetning
- 1 dl rifinn cheddarostur
- Salt og pipar
Verklýsing
Kartöflumús
- Kartöflur flysjaðar og settar í pott með léttsöltuðu vatni. Suðan látin koma upp og kartöflurnar soðnar í 20 mínútur. Gott að stinga í kartöflurnar með prjóni til að athuga hvort þær séu soðnar
Kjötsósa
- Vorlaukar skornir í sneiðar. Rabsolía sett á pönnu og hituð. Vorlaukur steiktur á meðalhita þar til hann verður mjúkur – ekki láta hann brúnast. Settur á disk og lagður til hliðar
- Hakkið steikt á pönnu á meðalhita. Gott að nota trésleif til að ná hakkinu vel í sundur. Látið steikjast en ekki taka of mikinn lit – salta og pipra
- Tómatar skornir í teninga og hvítlaukur saxaður smátt – bætt við kjöthakkið ásamt lambakraftinum og látið malla í 5 mínútur
- HP-sósa og Worcestersósa settar út í
Kartöflumús
- Vatni hellt af kartöflunum um leið og þær eru soðnar. Best að vinna með músina á meðan kartöflurnar eru heitar og mauka þær strax í skál – gott að nota kartöflupressu
- Rjóma, smjöri, eggjarauðu, salti og pipar bætt við og hrært þar til músin verður jöfn og loftkennd. Ef notuð er hrærivél til að hræra músina má ekki hræra of lengi. Þá getur áferðin breyst og kartöflumúsin orðið seig/slímug
- Cheddarosti bætt við – blandað saman
Samsetning
- Ofninn hitaður í 250°C
- Fat smurt með smjöri og kjötsósan sett í botninn
- Steikti vorlaukurinn settur ofan á og því næst er kartöflumúsin smurð yfir
- Cheddarosti dreift yfir – salta og pipra
- Rétturinn settur inn í ofn og látinn gratinerast í 10 mínútur (ef til vill aðeins lengur ef hann hefur náð að kólna)
Meðlæti
Borið fram með brakandi fersku salati.