Uppruni
Jebbs …. þegar haustar og nammibindindið hefst, svona bara til þess að komast í kjólinn fyrir jólin, er þessi kaka gráupplögð. Ég á eina dömu sem finnst Malteser gott og fannst því sniðugt að prófa þessa útgáfu af brownies. Hún þótti góð og er einföld og klikkar ekki sem eftirréttur þegar ungir sem aldnir koma saman. Ég hef prófað að nota pottana góðu og gengur það alveg glimrandi vel.
Hráefni
- 200 g suðusúkkulaði
- 250 g smjör
- 2 dl sykur
- 3 egg
- 1½ dl kakó
- 1 dl hveiti
- ½ tsk lyftiduft
- Smá salt
- 2 pokar Maltersers (hluti af því notað til að skreyta kökuna)
Ofan á
- 150 g ljóst eða dökkt súkkulaði
- 50 g smjör
- Hluti af Maltesersinu – Það má mylja kúlurnar aðeins sem fara ofan á
Verklýsing
- Ofninn stilltur á 175°C (blásturstilling)
- Suðusúkkulaði brætt í örbylgjuofni eða í heitu vatnsbaði. Það er auðveldara ef það er saxað aðeins
- Smjör og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós, einu eggi í einu bætt við og þeytt aðeins á milli
- Kakói, hveiti, lyftidufti og salti blandað saman og sigtað yfir blönduna ásamt bræddu súkkulaðinu og rúmlega helmingnum af malterserskúlunum
- Blandan sett í form (25×30 cm) með bökunarpappír í botninum (eða beint ofan í Hönnupott). Kakan bökuð í 20 – 23 mínútur eða þangað til hún er orðin þurr/hörð á brúnunum en ennþá blaut í miðjunni
- Kakan látin kólna
Ofan á
- Súkkulaðið saxað (þarf ekki ef notaðir eru dropar) og brætt í örbylgjuofni eða í heitu vatnsbaði. Blandan látin kólna aðeins og smurð yfir kökuna. Afganginum af Malteser dreift yfir
- Kakan kæld í ísskápnum