Þorskur með sveppauppstúfi og dillkartöflum

Þorskbitar með sveppauppstúfi og dillkartöflum

  • Servings: 5 – 6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessi réttur er heimatilbúinn. Ég set bara rasp og steiki fiskinn á einni hlið til að fá hana fallega og stökka – þannig reyni ég að minnka brasið. Einnig er hægt að snöggsteikja hann á öllum hliðum – svona spari.

Forvinna

Sveppauppstúfinn er hægt að búa til eitthvað áður og einnig kartöflurnar. Einnig má steikja fiskinn eitthvað fyrr og láta hann standa aðeins.

Hráefni

Fiskur

  • 1 kg roðlaus þorskur eða einhver annar fiskur
  • Rasp – t.d. heimagert brauðrasp
  • Ítölsk hvítlauksblanda – frá Pottagöldrum
  • Smjör og olía

Sveppauppstúfur

  • Smjör til steikingar
  • 250 g sveppir – skornir mjög smátt
  • 1 dl hvítvín
  • 2 msk þurrkaðir sveppir – muldir í morteli
  • 1½ – 2 dl matreiðslurjómi
  • 2 – 3 msk sósujafnari
  • Soja – nokkrir dropar
  • Salt/pipar

Kartöflur

  • 1 kg kartöflur
  • Dill – ferskt eða þurrkað

Verklýsing

Fiskur

  1. Ofninn hitaður í 180°C
  2. Fiskurinn er skorinn í bita. Brauðrasp sett í skál og kryddað með hvítlauksblöndu. Ein hliðin nudduð upp úr raspinu (ef vel á að gera við sig má velta öllum fiskinum upp úr raspinu)
  3. Olía sett á pönnu og hituð (á að vera frekar heit) – rétt áður en fiskurinn er settur á pönnuna er gott að setja aðeins af smjöri – gefur gott bragð
  4. Rasphliðin steikt á pönnunni – best að steikja snöggt (á frekar háum hita) þannig að hún fái fallega brúnan lit.  Fiskurinn settur í eldfast fat þar sem steikta hliðin snýr upp.  Ef fiskurinn er steiktur á öllum hliðum er er hægt að bera hann fram strax
  5. Fiskurinn eldaður í ofninum í 8 – 12 mínútur (háð þykkt og stærð á fiskbitunum)

Sveppauppstúfur

  1. Smjör brætt á pönnu og sveppir snöggsteiktir á frekar háum hita (má samt ekki brenna)
  2. Hvítvín sett út í ásamt þurrkuðum sveppum
  3. Rjóma og sósujafnara bætt við – hrært í á meðan suðan kemur upp (svo að blandan þykkni)
  4. Kryddað með soja, salti og pipar
  5. Látið standa og hitað aftur rétt áður en uppstúfurinn er borinn fram

Kartöflur

  1. Kartöflur soðnar (sett í léttsaltað vatn – suðan látin koma upp og soðið í u.þ.b. 20 mínútur. Fer eftir stærð á kartöflum)
  2. Kartöflur steiktar upp úr smjöri og dilli með eða án hýðis

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*