Heimagert laufabrauð – dýrmæt samvera með fjölskyldunni

Heimagert laufabrauð - dýrmæt samvera með fjölskyldunni

 • Servings: /Magn: 16-20 laufabrauðskökur
 • Difficulty: meðal
 • Print

Uppruni

Í nær 30 ár, eða frá því að ég kynntist manninum mínum, hef ég farið með honum í laufabrauðsgerð hjá fjölskyldu hans. Það að hittast einn eftirmiðdag og sameinast um að búa til laufabrauð frá grunni er löngu orðinn hluti af jólaundirbúningnum. Þarna sameinast kraftar allra kynslóða og börnin eru ekki há í loftinu þegar þau byrja að skera út kökurnar. Yfirleitt er það í höndum karlpeningsins að fletja kökurnar út og skiptir miklu máli að þær séu ekki of þykkar. Viðmiðið á Grund í Svarfaðardal í gamla daga var að hægt væri að lesa blaðsíðu í bók í gegnum kökuna. Þetta er nú kannski ekki alveg rétt – en svona nærri því!  Elsta kynslóðin fær það hættulega og ábyrgðarmikla hlutverk að steikja kökurnar – þá er yngsu kynslóðinni haldið víðs fjarri.  Síðustu ár hefur einu til tveimur stálpuðum börnum verið leyft að fylgjast með og aðstoða við að leggja hlemm yfir kökurnar þegar þær eru nýkomnar úr pottinum. Þegar komið er að því að steikja partana úr afskurðinum taka unglingarnir við. Fjölskyldan kemur oftast saman snemma á aðventunni og eru þá búnar til yfir 200 kökur. Það getur orðið alveg 8 klukkutíma törn. Allir fara heim glaðir með sitt. Laufabrauðsgerð með fjölskyldunni er dýrmæt og eftirminnileg stund í skammdeginu og gefur hún öllum mikið.

 

Hráefni

 • 400 g hveiti  (má setja 100 g sigtað heilhveiti og 300 g hveiti)
 • 15 g sykur (ein matskeið)
 • 1 tsk lyftiduft
 • 35 g smjör
 • 250 ml mjólk
 • U.þ.b 400 g Palminfeiti til að steikja í

Verklýsing

Deigið

 1. Þurrefnum blandað saman í skál. Ekki slumpa á magnið þá verður deigið ekki eins og það á að vera
 2. Mjólk og smjör sett í pott og hitað þannig að blandan verði snarpheit. Smjörið þarf að vera alveg bráðnað. Hellt saman við þurrefnin og hnoðað í hrærivél þar til deigið verður vel þétt, ekki hnoða of lengi
 3. Deigið má ekki vera of þurrt þá er bæði erfitt að fletja það út og skera í kökurnar
 4. Deigið rúllað upp í lengju og vafið innan í rakt stykki svo að það þorni ekki á meðan verið er að breiða út kökurnar
 5. Deiginu skipt upp í 20 hluta – hæfilega stór diskur (20 cm í þvermál)er notaður til að skera í kringum. Hver hluti flattur út – einn í einu og mikilvægt er að kakan verði þunn. Diskurinn lagður yfir og rúllað hringinn með kleinujárni
 6. Deigið sem fellur af er tekið saman, flatt út þykkt og búnir til partar með kleinujárni. Steikt í síðustu fitudropunum
 7. Næsta skref er að skera út – þá er bara um að gera að nota hugmyndaflugið en best er að notast við laufabrauðsjárn til að hjálpa við að útbúa mynstur
 8. Þegar búið er að skera kökuna út er mikilvægt að pikka hana vel með gaffli og raða í stafla hver ofan á aðra með bökunarpappír á milli
 9. Þegar búið er að skera allar kökurnar út er byrjað að undirbúa steikingu
 10. Palmínfeiti er hituð í potti sem er nægilega stór í þvermáli til að rúmt sé um kökurnar
 11. Þegar feitin er bráðnuð og orðin nægilega heit (þá frussar í kringum tannstöngul sem stungið er ofan í) er byrjað að steikja. Ein kaka í senn er sett ofan í feitina og hún látin steikjast örstutta stund. Steikargafall/prjónn er notaður til að lyfta kökunni upp og snúa henni við. Eftir dágóða stund minnkar hitinn í feitinni. Þá er lokið sett á pottinn, hitinn á hellunni hækkaður og beðið í nokkrar mínútur. ,,Tannstöngulprófið“ gert á ný
 12. Kakan tekin upp, lögð á eldhúspappír og hlemmi þrýst létt ofan á til að hún verði slétt og fín

Skraut

Stundum höfum við gert minni kökur og notað þær sem gluggaskraut – sjá mynd fyrir neðan

Gott með: Laufabrauð er gott með hangikjöti og ýmsum jólamat en það er alltaf jafn gott að fá sér bita með eplasalati eða Waldorfsalati.

Deigið búið til

 

Deigið flatt út

 

Steiking undirbúin

 

Laufabrauð steikt

 

Partar búnir til

 

Partar steiktir

Gluggaskraut

img_1403

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*