Heimatilbúinn piparkökukastali – frábær samvera með börnunum

Heimatilbúinn piparkökukastali - frábær samvera með börnunum

 • Servings: Kastali, jólatré, dýr, karlar og kerlingar
 • Difficulty: smá snúið í byrjun
 • Print

Uppruni

Frá því að ég var lítil hefur mamma bakað og sett saman piparkökuhús fyrir hver jól. Húsið fékk að standa óhreyft í nokkra daga en svo í hinu árlega jólaboði á annan í jólum mátti maður brjóta sér bita. Piparkökuhúsin hafa verið af öllum stærðum og gerðum í gegnum árin en í seinni tíð hefur hún búið til kastala sem er algjörlega hennar hönnun sem arkitekt. Hann uppfyllir helstu skilyrðin: er glæsilegur, þægilegur í samsetningu og litlar líkur eru á að hann falli saman. Þegar hún hafði húsin með stóru þaki kom einstöku sinnum fyrir að þau féllu – sérstaklega þegar veðrið var rakt. Undanfarin ár hefur mamma búið til kastalann hér hjá okkur. Þessar  tvær kvöldstundir er stór og ómissandi hluti af jólaundirbúningi barnanna.  Við njótum líka öll góðs af afrakstrinum.

Forvinna

Best að útbúa deigið daginn áður og láta það standa í kæli yfir nótt. Það tekur eina kvöldstund að fletja deigið út, forma það og baka. Skreyting og samsetning tekur svo annað kvöld.

Hráefni

Piparkökur

 • 2 tsk hjartarsalt
 • 3 dl síróp
 • 280 g sykur
 • 1 msk engifer
 • 1 msk kanill
 • 2 tsk negull
 • 2 tsk kardimomma
 • 240 g smjör
 • 3 egg
 • 1 – 1,2 kg hveiti

Glassúr

 • 1 eggjahvíta
 • ½ – 1 dl flórsykur (magn fer eftir stærð eggjahvítunnar)
 • Dropar af sítónusafa

 Skreyting og samsetning

 • Bræddur sykur
 • Nammi sem er í uppáhaldi – best að klippa/skera það niður í litla bita

Verklýsing

Skýring á kastalanum:

Kastalinn samanstendur af fjórum sjálfstæðum turnum. Tveir aftari turnarnir eru hærri en hinir og eru þeir með fjórum gluggum. Bakhliðarnar tengjast saman með hliði (Kastali E). Tveir fremri turnarnir eru með þremur gluggum og stendur hver turn einn og sér. Það er gólf í öllum turnunum.

Teikningar á pdf skjali – prentaðar út og klipptar út áður en byrjað er á verkinu

Kastali A – bakhliðar kastalans og framlenging á þeim með því að nota viðbót sem er í skjalinu: Kastali E (skýring á myndum fyrir neðan)

Kastali B – hliðar á aftari turnum

Kastali C Kastali D  – hliðar í aftari turnum sem eru með fjórum gluggum

Kastali E – viðbót fyrir Kastala A og hurð að framan

Kastali F – fremri hliðar á turnunum (framhlið kastalans)

Kastali G Kastali H Kastali I – hliðar í fremri turnana sem eru með þremur gluggum

Kastali JK – 4 botnar í turnana og hlið til að tengja bakhliðarnar saman

Jólatré-3 Jólatré-2 Jólatré-1 – hvert jólatré er prentað út í tveimur eintökum og er gerð rauf  í annað þeirra ofan frá en í hitt neðan frá

Ath Þær hliðar sem eru í tveimur eintökum þá á önnur hliðin að snúa rétt en hina á að skera út sem spegilmynd (sjá myndband fyrir neðan)

Skref 1 – deig hnoðað

 1. Allt hráefni nema smjör, egg og hveiti hitað í potti – ath. má ekki sjóða en sykurinn þarf samt að ná að bráðna
 2. Smjöri bætt út í – blandað saman
 3. Hellt úr pottinum í hrærivélarskál, eggin sett út í og hluti af hveitinu – blandað saman. Afgangi af hveitinu hnoðað saman við
 4. Deigið rúllað í lengju og hulið með plastfilmu – sett í kæli yfir nótt

Skref 2 – kastali sniðinn 

 1. Áður en byrjað er að fletja út deigð er best að prenta út teikningarnar af kastalanum og klippa þær út
 2. Betra að fletja deigið út kalt – gott að geyma í kæli það sem ekki er verið að nota
 3. Þegar deigið er flatt út er ráð að nota pökunarpappír á báðum hliðum og fletja það þannig út. Betra að hafa deigið frekar þunnt, þegar skorið er út, og allir hlutar þurfa að vera jafnþykkir
 4. Útskurður – sjá myndband fyrir neðan

Athuga:

 • Best er að ljúka við allan útskurð áður en byrjað er að baka. Ágætt að stafla örkunum ofan á hverja aðra (það tekur minna pláss) – bara að varast, þegar hver örk er tekin, að kakan undir fylgi ekki með  
 • Stundum getur deigið fest við teikningarnar – þá getur verið gott að hafa bökunarpappír á milli (sjá myndir)
 • Það getur verið gott að hafa hverja hlið á einni örk þar sem þykkt á hliðum getur verið mismunandi og bakast misfljótt (sjá myndir)
 • Athuga og það sem er tekið út fyrir gluggunum er skorið í tvennt og notað sem hlerar (sjá myndband). Gaman að búa til stiga og nokkrar hellur (göngustíg) til að skreyta með

Skref 3 – bakstur

 1. Ofninn hitaður í 210 – 220°C (yfir- og undirhiti), örk með útskurðinum sett á bökunarplötu og bakað í u.þ.b. 2 – 5 mínútur (fer eftir þykktinni þegar flatt er út) – mjög mikilvægt að fylgjast vel með svo að kökurnar brenni ekki – það getur gerst hratt – það er betra að kökurnar séu frekar dökkar en ljósar þ.e. vel bakaðar – þeim mun stökkari verða þær
 2. Mikilvægt: að máta hvort jólatrén smelli ofna í hvort annað.  Eingöngu er hægt að skera/snyrta kökurnar um leið og þær koma úr ofninum. Sama á við um gólfin í turnunum – mikilvægt að bera gólfin saman við teikninguna þar sem þau mega alls ekki vera of stór (betra að þau séu minni en stærri.

Skref 4 – skreyting

 1. Eggjahvíta þeytt ásamt flórsykri – það er erfitt að áætla magnið þar sem eggjahvítur eru misstórar. Blandan er þeytt þar til hún verður létt og ljós. Glassúrinn settur í kökusprautu – gott að nota eina plastsprautu. Stundum höfum við sett glassúrinn í plastpoka, klippt eitt hornið af og sprautað  út um gatið – það verður samt ekki eins fallegt
 2. Sprautan með glassúrnum er notuð til að skreyta (sjá myndir) allar hliðar kastalans (lína meðfram brúnunum) svo eru settar doppur á hliðarnar þar sem sælgætisbitar er festir á.  Athuga að láta glassúrinn þorna vel áður en allt er sett saman
 3. Athuga að við höfum ekki skreytt hliðarnar sem snúa inn heldur eingöngu þær sem sjást utan frá – sjá myndir
 4. Sælgæti: Okkur hefur reynst best að kaupa Haribo sælgæti sem við klippum niður og dreifum á allar hliðar. Einnig hefur verið hægt að kaupa litla Haribobita í pokum sem passa vel til skreytinga

Skref 5 – samsetning – gott að horfa á myndbandið hér fyrir neðan sem sýnir samsetninguna

 1. Nú er komið að þeim þætti þar sem börnunum er haldið víðs fjarri – sykur er settur á stóra og víða pönnu og látinn bráðna þar til hann verður brúnn (ágætt að lækka þá hitann þannig að sykurinn brenni ekki)
 2. Tvær stórar hliðar látnar mynda 90°horn (ágætt að miða við bak og aðra hlið turns). Á teikningunum má sjá hvaða hliðar eiga að fara saman.  Annarri brúninni dýft ofan í sykurbráðina og hún lögð upp við brúnina á hinni
 3. Næsta skref er að setja botninn í turninn. Tveimur brúnum á botninum er dýft í sykurbráðina og hann skorðaður í hornið
 4. Samsetningin er ekki svo heilög – stundum brotnar eitthvað og þá er auðvelt að laga það með því að setja sykurbráðina í brotið og þrýsta saman – síðan má fela brotið með glassúr

Myndbönd

Útskurður:Spegilmynd – útskurður

Skreyting

Samsetning

Myndir

Gott að byrja á því að prenta út allar teikningar og klippa formin út

img_0966

Kastali A klipptur út og viðbótinni bætt við úr Kastala E

 

Kökudeigið komið úr kælinum og hafist handa við að fletja út

img_0969

img_0967

 

Jólatré

img_0968

 

Stiginn útbúinn 

img_0965

img_0963

Búið að baka einingarnar. Gott að fara yfir og sjá hvort eitthvað þurfi að laga á meðan kökurnar eru volgar og áður en sett er saman. Stundum þarf að snyrta aðeins hér og þar eins og til dæmis botnana  í turnunum – þeir mega alls ekki vera of stórir

img_0964

Glassúr þeyttur

img_1211

Skreyting
img_1201

Samsetning

img_1199

 Brotið jólatré lagfært

img_1200

img_1410

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

*