Góð og fljótleg rúlluterta með súkkulaðismjörkremi
Uppruni
Þessi uppskrift kemur frá mömmu – gömul og sígild rúlluterta. Hún er fljótleg og barnvæn. Nú eru það barnabörnin sem baka þessa köku þegar þau langar í eitthvað gott.
Forvinna
Taka smjörið úr ísskápnum tímanlega þannig að það verði mjúkt.
Hráefni
Kaka
- 3 egg
- 2 dl sykur
- 1 dl hveiti
- ½ dl kartöflumjöl
- 1 tsk lyftiduft
- 2 msk vatn
Smjörkrem
- 100 g smjör
- 1½ dl flórsykur
- 1 eggjarauða
- 2 msk kakó
- Rifið hýði af ½ lífrænni appelsínu (má sleppa)
Verklýsing
- Ofninn hitaður í 250°C (yfir- og undirhiti)
- Egg og sykur hvítþeytt – þannig að eggjahræran verði ljós og stíf
- Hveiti, kartöflumjöli og lyftidufti blandað saman í skál – hrært út í eggjahræruna með sleikju
- Vatni bætt við
- Deigið sett á smurðan bökunarpappír (olía eða smjör) í ofnskúffu – dreift jafnt út
- Bakað í 3 – 5 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með þar sem kakan er fljót að verða dökk
- Hvolft á hveitistráðan dúk (viskustykki). Pappírinn dreginn af og ofnskúffan látin yfir meðan kakan kólnar
Smjörkrem
- Smjör og sykur hvítþeytt – oft er betra að nota hrærara en þeytara
- Eggjarauðu bætt í – þeytt/hrært saman
- Kakó og appelsínuhýði (má sleppa) sett út í – þeytt/hrært
Samsetning
- Fyllingin breidd yfir tertubotninn – gott að nota spaða eða hníf
- Kökunni rúllað upp og velt upp úr strásykri. Einnig er hægt að nota flórsykur og skreyta með bráðnu súkkulaði
Geymsla
Rúllutertan er best nýbökuð en hún er einnig mjög góð daginn eftir.

Mjög fljótlegur eftirréttur





