Dásamlegir kransakökubitar með núggati

Dásamlegir kransakökubitar með núggati

  • Servings: /Magn: u.þ.b. 60 - 90 kökubitar - fer eftir stærð
  • Difficulty: auðvelt
  • Print

Uppruni

Að baka kransakökubita með núggati er ein af jólahefðinni. Grunnuppskriftin er sú sama og í eldspýtukökunum hennar mömmu en þessar kökur eru fyrir þá sem eru hrifnir af núggati. Það er ekki flókið að gera þessar kökur og upplagt að bjóða upp á þær í saumklúbbnum eða í veislum. Stundum helminga ég uppskriftina ef ég þarf ekki svona margar. Þá tekur rúma klukkustund að baka þær.

Hráefni

  • 670 g möndlumassi

Ath: Það er ekki sama hvaða marsipan er notað. Ég hef verið með það sem fæst í Fjarðarkaupum og þeir pakka sjálfir. Athuga að þetta er kransakökumassi (ekki hjúpmarsipan). Hef notað danska Odense marsipanið, með mismunandi árangri, en þar er sykur- og möndlumagnið mismunandi eftir tegundum. Kökurnar hafa lekið og orðið allt öðruvísi nema þegar ég hef notað marsipanið frá þeim með 63% möndlum – þá hefur það gengið glimrandi vel.

  • 250 g sykur
  • 1 eggjahvíta
  • 15-17 g vatn
  • 200-250 g núggat – ágætt að hafa það kælt
  • Möndluflögur – mylja þær aðeins í morteli þannig að þær tolli betur
  • U.þ.b. 70 g suðusúkkulaði

Verklýsing

Athuga að þykkt og stærð á bitunum í lýsingunni eru meira til viðmiðunar

  1. Ofinn hitaður í 175°C (yfir- og undirhiti)
  2. Möndlumassi, sykur, eggjahvíta og vatn hrært saman – ekki hræra lengi heldur bara rétt þar til hráefnin hafa blandast saman
  3. Deiginu skipt í 4 parta og hver partur rúllaður í lengju sem er u.þ.b. 2 – 3 cm að þykkt
  4. Skorið í miðjuna á lengjunni þannig að góð rauf myndist – ágætt að opna raufina til að núggatið komist vel fyrir. Núggatið er skorið í lengjur (hæfilega þykkar fyrir raufina á lengjunni) – sett í raufina.  Ágætt að klemma svo aðeins saman. Muldum möndluflögum dreift yfir
  5. Skorið í u.þ.b. 3 – 4 cm langa bita. Gott að laga aðeins skurðendana með fingrunum/hnífi þannig að kakan verði fallegri. Raðað á ofnskúffu/grind með smjörpappír
  6. Látið bakast í 12 – 17 mínútur. Mikilvægt að fylgjast vel með kökunum síðustu 5 mínúturnar – ofnar geta verið misheitir
  7. Kökurnar látnar kólna á grind
  8. Suðusúkkulaði sett í skál, hitað í örbylgjuofni eða yfir heitu vatnsbaði
  9. Gaffall notaður til að dýfa í bráðið súkkulaðið og dreift yfir bitana – mjög frjálsleg skreyting. Það sem eftir er að bráðna súkkulaðinu má hella á bökunarpappír – strá möndlum og salti yfir. Láta harðna – brjóta í bita og gæða sér á 🙂 Einnig má nota afganginn til að útbúa súkkulaðikonfekt með lakkrískeimi
  10. Súkkulaðið látið harðna og kökubitarnir settir í box. Best að geyma þá í kæli – þar geymast þeir vel og lengi

 

 

 

Súkkulaði brætt í vatnsbaði eða í örbylgjuofni – gaffall notaður til að dreifa súkkulaði yfir bitana
IMG_0001

 

Fjöldi stykkja getur verið mismunandi eftir stærð bita.  Hér er sama uppskrift notuð en fjöldi bita í annarri skúffunni rúmlega 60 en nær 100 í hinni. 

img_1601

Hef notað þennan kransakökumassa

img_1600

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*