Parmesan kjúklingur – fjölskylduvænn og góður kjúklingaréttur

Parmesan kjúklingur - fjölskylduvænn og góður kjúklingaréttur

  • Servings: fyrir 4 -6
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Fann þessa uppskrift um daginn í blaði og ákvað að prófa. Rétturinn vakti mikla lukku hjá öllum aldurshópum og er hann þegar kominn á matseðil fjölskyldunnar. Prófaði að nota bæði bringur og hálfúrbeinuð læri. Misjafnt hvað þótti betra en kjúklingalærin voru mun safaríkari og stökkari en fitumeiri.

Forvinna

Sósuna má laga eitthvað áður. Hægt er að forsteikja kjúklingahlutana – geyma í einhverja stund og hita svo aftur rétt áður en rétturinn er borinn fram.

Hráefni

Parmesan kjúklingur

  • 4 kjúklingabringur – skornar í tvennt eða 6 – 8 hálfúrbeinuð læri
  • 1 dl hveiti
  • 1 stórt egg
  • 100 gr parmesanostur – fínrifinn (minna magn ef lærin eru notuð)
  • Olía og ögn af smjöri til steikingar – smjörið gefur gott bragð
  • Salt og pipar

Basilikusósa

  • 1 dós sýrður rjómi
  • 2 msk majones
  • 1 hvítlauksrif – saxað smátt eða sett í hvítlaukspressu
  • u.þ.b. ½ dl fersk basilika – söxuð
  • Ögn af salti

Verklýsing

Basilikusósa

  1. Ágætt að búa sósuna til fyrst og láta hana standa aðeins. Sýrðum rjóma og majónesi hrært vel saman við
  2. Hvítlaukur og basilika sett út í og hrært saman. Smakkað til með salti

Parmesan kjúklingur

  1. Ofninn hitaður í 180°C
  2. Egg hrært með gaffli í skál. Hveiti sett í aðra skál og rifinn parmesanostur í þriðju skálina. Kjúklingi fyrst velt upp úr hveiti, næst upp úr eggi og að lokum upp úr parmesanostinum. Gott að hafa alla bitana tilbúna áður en þeir eru steiktir – næsta skref er að hita pönnuna og láta olíu og smjör hitna
  3. Kjúklingabitarnir steiktir á pönnu þar til fallegur litur er kominn á þá. Settir í eldfast mót og inn í ofn. Kjúklingarbringurnar þurfa að vera u.þ.b. 12 mínútur í ofninum eða þar til þær eru steiktar í gegn. Lærin þurfa að vera aðeins lengur eða u.þ.b 25 – 30 mínútur

Meðlæti

Gott byggsalat passar mjög vel með en einnig er hægt að hafa hrísgrjón eða kúskús. Ferskt salat er ómissandi.

Geymist

Geymist ágætlega í kæli yfir nótt.  Frábært að eiga afgang og nota á Tortillapizzur daginn eftir.

IMG_5122

IMG_5150

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*