Ýsubollur frá Páls-Briemsgötu

Ýsubollur frá Páls-Briemsgötu

  • Servings: fyrir 6 – 8 / 22 bollur
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Uppskriftin kemur frá langömmu barnanna minna, Sólveigu á Akureyri. Pabbi þeirra ólst upp við þessar bollur og þegar ýsubollurnar boppa á pönnunni hverfur Frú Sigríður í huganum aftur á Páls-Briemsgötu. Fiskibollurnar hafa alltaf þennan gamla skemmtilega sjarma.

Hráefni

  • 1,5 kg fersk ýsuflök með roði (u.þ.b. 1 kg hreinn fiskur)
  • 1,5 tsk salt
  • 30 g smjörlíki/smjör – mjúkt
  • 1 egg
  • 2 msk hveiti – kúfaðar
  • 2 msk kartöflumjöl – kúfaðar
  • 1,5 dl nýmjólk
  • olía til steikingar

Verklýsing

  1. Gott að þerra fiskinn vel með eldhúspappír áður en hafist er handa. Fiskurinn er skafinn úr roðinu með breiðum hnífi og settur í hrærivélarskálina. Salti dreift yfir
  2. Þeytt saman með þeytaranum dágóða stund eða þar til hræran er orðin þétt og seig
  3. Smjörið sett saman við og þeytt áfram smástund
  4. Egg, hveiti (1 msk.), mjólkurskvetta, kartöflumjöl (1 msk.) sett til skiptis og hrært rólega á milli
  5. Þar sem fiskurinn getur verið mismunandi blautur úr búðinni þá er erfitt að segja til um nákvæmt magn af mjólk. Deigið á að vera nokkuð þunnt og markmiðið er að heyra fallegan slátt í skálinni í lokin
  6. Bollur mótaðar í djúpri skeið og steiktar á pönnu á skörpum hita. Látnar malla á lágum hita í nokkrar mínútur svo að þær steikist örugglega í gegn

Meðlæti

Kartöflur og brætt smjör var alltaf haft með en með nýrri kynslóð hafa óskir um hrísgrjón og karrýsósu bæst við. Salat er ómissandi með.


IMG_0462

IMG_0466

3 Comments

  1. Hafliði Pálsson

    Sæl og takk fyrir frábærar og spennandi uppskriftir.

    Mér áskotnaðist slatti af ýsuflökum nýlega sem ég roðfletti og gekk frá í frysti.
    Nú er ég að velta fyrir mér að gera úr hluta af þeim flökum, fiskibollur og mér lýst vel svona gamaldagsuppskrift 🙂

    Ein spurning vaknar þó, og hún er sú að ég hélt að ég þyrfti að setja flökin í gegnum hakkavél, en hjá þér talar þú um að „Fiskurinn er skafinn úr roðinu með breiðum hnífi og settur í hrærivélarskálina. Salti dreift yfir
    Þeytt saman dágóða stund eða þar til hræran er orðin þétt og seig“

    Þarf sem sé ekki að hakka, bara láta „k-áið“ rífa sundur fiskinn?

    Mbk. Hafliði

    • Sæll Hafliði – gaman að uppskriftirnar eru í lagi 🙂
      Tengdamóðir mín Frú Sigríður er sérfræðingur í þessum bollum .. það lá því beinast við að biðja hana um að svara – hér kemur svarið hennar:

      Í þessari uppskrift má alls ekki hakka fiskinn. Þá verða bollurnar allt of lausar í sér.
      Ef fiskurinn kemur úr frysti þarf að þerra flökin vel á brettinu. Það er alveg hægt að skafa hann þar (aðeins seinlegra). 700 – 800 g af hreinum fiski ætti að passa inn í uppskriftina.

      Ath. Þeytarinn (ekki hnoðarinn) er notaður til þess að gera deigið seigt með saltinu.

      Láttu endilega vita ef eitthvað er óljóst.

      Kveðja, Hanna

  2. Hafliði Pálsson

    Takk fyrir svarið, nú læt ég vaða í bollur 🙂
    Frábærar uppskriftir hjá þér og falleg framsetning.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*