Lög af því besta í einni köku

Góð þrenna í einni köku

  • Servings: /Magn: 12 sneiðar
  • Difficulty: smá dútl
  • Print

Uppruni

Þrátt fyrir smá dútl er mjög gaman að baka þessa köku.  Hún hefur að geyma þrennt gott þ.e. súkkulaðiköku, sítrónusmjör og hvítsúkkulaðimús.  Til að einfalda ferlið má útbúa sítrónusmjörið daginn áður eða jafnvel fyrr. Fyrir þá sem vilja síður sítrónusmjör má setja eitthvað annað spennandi á milli.   Kakan þarf að jafna sig í kæli yfir nótt og þá er bara skemmtilegasti parturinn eftir .. að skreyta hana.  Þegar halda skal veislu er það stór plús að einfalda sér lífið og hafa sem mest tilbúið fyrr um daginn eða daginn áður. Þessa fallegu og saðsömu köku má gera algjörlega tilbúna og svo bara galdrast hún úr ísskápnum.

Forvinnsla 

Kökuna þarf að búa til daginn áður svo að hún nái að jafna sig.  Sítrónusmjörið er hægt að gera áður og geyma í kæli

 

Hráefni

Brownies

  • 120 g smjör
  • 60 g suðusúkkulaði
  • 2 egg
  • 1 dl kakó
  • 1 msk vanillusykur
  • ½ tsk salt
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2½ dl sykur
  • 2 dl hveiti

 

Sítrónusmjör

  • 2 lífrænar sítrónur – börkur og safinn
  • 2 egg (má einnig nota eingöngu eggjarauðurnar – þá verður smjörið aðeins tærara)
  • 1½ dl sykur
  • 50 g smjör

 

Hvít súkkulaðimús

  • 2½ plötur/stk matarlím
  • 400 g hvítir súkkulaðidropar
  • 6 dl rjómi

 

Verklýsing

Brownies

  1. Ofninn stilltur á 200°C (blástursstilling)
  2. Smjörið og súkkulaðið brætt saman – lagt til hliðar
  3. Egg, kakó, vanillusykur, salt, og lyftiduft hrært saman
  4. Sykri og hveiti blandað saman við ásamt brædda súkkulaðismjörinu – hrært saman
  5. Sett í 20 cm  smelliform með bökunarpappír undir og bakað í u.þ.b. 20 – 22 mínútur
  6. Kakan tekin úr forminu

 

Sítrónusmjör

  1. Börkur rifinn fínt og settur í pott ásamt sítrónusafanum
  2. Sykri og eggi blandað saman við og hitað – hræra vel á meðan blandan hitnar
  3. Þegar blandan er orðin þykk – svipuð og bernaisesósa – er hún tekin af hitanum og smjörinu bætt við – hrært
  4. Þegar smjörið hefur bráðnað og blandast saman við er sítrónusmjörið látið kólna – ágætt að setja það í glerkrukku með loki og geyma í kæli

 

Hvítsúkklaðimús

  1. Matarlím sett í kalt vatn í 5 mínútur
  2. Súkkulaðiperlurnar bræddar í skál yfir heitu vatnsbaði
  3. 2 dl af rjómanum hitaður í potti. Matarlímið kreist frá vatninu (með höndunum) og sett í heitan rjómann – hrært saman þar til matarlímið hefur blandast rjómanum
  4. Matarlímsrjómablandan og bráðnaða, hvíta súkkulaðið blandað saman – láta það blandast vel saman (áferðin breytist aðeins við það)
  5. 4 dl af rjómanum þeyttur – blandað saman við hvítsúkkulaðirjómablönduna. Ágætt að setja rjómann út í smátt og smátt

 

Samsetning

  1. 1½ – 2 cm skornir utan af súkkulaðibotninum þannig að hann mælist 18 cm í þvermáli.  Hægt að geyma afskurðinn til að skreyta kökuna með eða bara gæða sér á bita með kaffinu
  2. Plastfilma sett innan í smelliformið til að ná kökunni betur úr forminu í lokin.  Bökunarpappír settur í botninn (ég reyni yfirleitt að nota sama bökunarpappírinn).  Súkkulaðibotninn settur í botninn.  Sítrónusmjöri smurt yfir yfir kökuna – hef notað u.þ.b. 2 dl
  3. Ágætt að setja hluta af hvítu rjómasúkkulaðiblöndunni í rjómasprautu og sprauta á hliðarnar – auðvaldara að fylla vel í kringum brúnu kökuna. Helli svo yfir kökuna þannig að formið fyllist – plastfilma sett yfir og kakan látin jafna sig í kæli yfir nótt.  Það sem eftir er af rjómanum er sett í rjómasprautuna og hún einnig geymd í kæli þar til daginn eftir þegar kakan er skreytt. Ath. það getur verið smá maus að setja í rjómasprautuna þar sem blandan er frekar þunn þannig að hún getur lekið út úr rjómasprautupokanum – ágætt að klemma fremri endann þegar sett er í sprautuna

 

Skreyting

  1. Plastfilman og smelliformið tekið af.  Kakan sett á tertudisk og skreytt með því sem er í rjómasprautunni og einnig t.d. ferskum berjum, myntulaufum, afgangi af kökubitunum, sítrónusmjörinu eða bara því sem hverjum og einum dettur í hug

 

Geymsla: Kakan er geymd í kæli og er góð alveg í þrjá daga.

Ágætt að skoða myndböndin en einnig eru skýringarmyndir fyrir neðan.

Sítrónusmjör

Hráefni

 

Brownies

 

 

Hvítsúkkulaðimús, samsetning og skreyting

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*