Súrdeigsbrauð með litlar kröfur

Súrdeigsbrauð með kakói og valhnetum

  • Servings: Magn/: 1 brauð
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni
Hér kemur útgáfa af súrdeigsbrauði .. kakóið gefur brauðinu fallegan, brúnan lit og góðan ilm.  Brauðið gerir ekki miklar kröfur í bakstursferlinu – engir snúningar – það þarf bara sinn tíma í hefingu.  Eins og svo oft áður er hægt að gera allt tilbúið … karfan með deiginu getur beðið þolinmóð í kælinum í allt að 5 daga … eða þar til brauðið er bakað.

Forvinna

Hérna er gott að byrja að morgni… láta deigið standa allan daginn… gera þrískiptinguna um kvöldið.  Karfan með deiginu sett í kæli yfir nótt og brauðið bakað daginn eftir.  Þannig er auðveldlega hægt að hefja morgun með góðu brauði.

 

Hráefni

  • 310 – 330 g vatn
  • 120 g súrdeigsgrunnur
  • ½ dl hunang
  • 3 dl valhnetur
  • 3 msk kakó
  • 8 dl hveiti
  • 20 g vatn
  • 2 tsk salt
  • Klípa af bræddu smjöri  (má sleppa)


Verklýsing

  1. Öllu blandað saman nema 20 g af vatni, salti og smjöri.  Látið standa í 30 – 40 mínútur
  2. Salti og 20 g af vatninu bætt við –  hnoðað með annarri hendinni – sjá myndband
  3. Sett í skál eða lokað ílát og látið hefast í 8 – 10 klukkustundir. Ílátinu snúið við og lagt á hveitistráð borð. Deigið látið falla á borðið.  Ef tími er til þá er gott að leyfa deiginu að jafna sig í 20 – 30 mínútur. Þrískiptingin gerð – sjá myndband.  Sett í körfu og látið standa við stofuhita í 3 – 4 klukkustundir eða sett í kæli yfir nótt (eða lengur)
  4. Ofninn stilltur á 250°C (yfir- og undirhiti) – leirpottur látinn hitna með ofninum.  Karfan tekin út – gott að gera það um leið og kveikt er á ofninum
  5. Deigið sett í heitan pottinn… skorið mynstur í brauðið.  Bakað í 25 mínútur.  Þá er lokið tekið af – hitinn lækkaður í 225°C og bakað áfram í 20 mínútur
  6. Þessu má sleppa: Þegar brauðið er tekið út er bræddu smjöri penslað yfir það (ekki allra efst þar sem er meira hveiti).  Brauðið látið jafna sig… þetta geri ég til að skorpan verði mýkri.  Ég kýs frekar harða skorpu en geri þetta stundum fyrir aðra heimilismeðlimi sem vilja hafa skorpuna aðeins mýkri


 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*