Þessi kórónar allt…

Heilsteiktar lambakórónur með kryddhjúp

  • Servings: 6 - 8
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Fyrir 20 árum fékk ég þennan rétt í afmæli og hef verið lengi á leiðinni með að elda hann sjálf.  Það tók smá tíma að hafa upp á uppskriftinni en loksins fannst hún í gömlu, lúnu uppskriftabókinni minni.  Um er að ræða sænska úrklippu en líklega er hún úr áratuga gömlu tímariti frá mömmu. Hafði þennan flotta rétt núna um áramótin en hef einnig boðið upp á hann matarboðum – auðveldur og góður.  Eldunartíminn getur verið aðeins mismunandi eftir bitastærðum en best er að nota hitamæli til að fá réttu steikinguna – það er smekksatriði hversu mikið kjötið á að vera steikt – ég vil hafa það frekar rautt.  Kórónur eru kannski ekki efst á óskalistanum þessa daganna en það er alveg satt … að þessar gleðja bragðlaukana.

Athuga: Mikilvægt að taka kjötið úr kæli töluvert áður en það er matreitt þannig að það sé ekki of kalt þegar það er sett á pönnuna.   Einnig er gott að taka það úr umbúðum og leyfa því að jafna sig.  Stundum læt ég það standa í 3 – 4 tíma áður en það er matreitt og tek það þá úr umbúðunum a.m.k. klukkustund áður.

 

Hráefni

Kryddlögur – ekki er nauðsynlegt að nota ferskar kryddjurtir en fallegt að hafa 1 – 2 af kryddjurtunum ferskar 

  • 2 msk brauðrasp
  • 2 msk fersk steinselja – söxuð
  • ½ tsk þurrkað estragon
  • ½ tsk þurrkað timjan
  • ½ tsk þurrkað marjoram
  • ½ tsk þurrkað rosmarin
  • 1 – 2 hvítlauksrif – saxað
  • Salt og pipar

 

Kjöt

  • U.þb. 2 kg lambakórónur
  • Smjör til steikingar

Verklýsing

Kryddlögur – ef notuð eru fersk krydd þarf meira magn af þeim (u.þ.b. msk í stað tsk)

  1. Öllu blandað saman í skál

 

Kjöt

  1. Ofninn hitaður í 250°C (yfir- og undirhiti)
  2. Smjör brætt á meðalstórri steikarpönnu sem þolir að fara í ofn
  3. Þegar smjörið er orðið vel heitt eru lambakórónurnar settar á pönnuna – fituröndin látin snúa niður Ath. mikilvægt að pannan sé vel heit þannig að litur komi strax á fituröndina – ef það heyrist gott steikingarhljóð þá er pannan vel heit.  Stundum höfum við látið kjötið steikjast aðeins í 1 – 2 mínútur
  4. Pannan sett síðan beint inn í ofn (miðjan ofninn) í 5 mínútur – tekin út og kórónunum snúið við – látnar steikjast í 5 mínútur í viðbót inni í ofni
  5. Kryddjurtum stráð yfir – ofan á fituröndina og vökvanum á pönnunni ausið yfir kjötið
  6. Steikt til viðbótar í 2 – 4 mínútur. Ath. nú er gott að setja kjöthitamæli í kjötið – steikingartíminn er háður þykkt kjötsins. Þegar hitamælirinn sýnir í kringum 50- 52 gráður er pannan tekin úr ofninum og kjötið sett á skurðarbretti  – mikilvægt að láta kjötið standa og jafna sig í u.þ.b. 5 – 10 mínútur. Þá er gott að nota tímann og skerpa á hitanum á sósunni og kartöflunum
  7. Fallegt að skera hverja kórónu í sneiðar þannig að eitt bein fylgi hverri sneið – fitan er ómissandi með og til að kóróna góðan bita þá er gott að naga beinið vel

 

Meðlæti:

Sósa:  Mér finnst best að bjóða upp á sveppasósu með kjötinu – hægt að hafa hana tilbúna áður en kjötið er steikt og þá er bara eftir að skerpa á hitanum áður en hún er borin fram. Einnig er einfalt að setja 1 dl vatn á pönnuna og láta það aðeins sjóða upp. Krydda með salti og hvítum pipar- hellt í skál.

Kartöflur: Gott að hafa kartöflur með eins og t.d. kartöfluskífur eða strimlar, hasselback kartöflur eða ofnbakaðar kartöfluskífur með chili og parmesan. Stundum hef ég forsoðið kartöflur og steikt þær á pönnu upp úr smjöri og kryddað með paprikukryddi, salti og pipar.

Salat: Ferskt salat

Kryddlögur útbúinn – kjötið tekið úr kæli og látið jafna sig

 

Sósan útbúin – sjá góð sveppasósa

 

Kjötið sett á heita pönnu – mikilvægt að pannan sé vel heit

 

Kjötið látið aðeins steikjast í 1 – 2 mínútur – sérstaklega ef bitarnir eru stórir 

 

Kjötið er sett inn í heitann ofninn í 5 mínútur

 

Pannan tekin út – kjötinu snúið við og sett aftur inn í ofn í 5 mínútur

 

Kjötið tekið út – kryddinu stráð yfir og ausað yfir kjötið 

 

Gott að setja kjöthitamæli í fyrir síðustu ferðina í ofninn

 

Kjötið lagt á bretti og látið jafna sig

 

Fallegt að skera kjötið í sneiðar

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*