Bleikja með dýrindis graslaukssósu – það gerist bara ekki betra

Bleikja í graslaukssósu umvafin fennel og radísum

  • Servings: 6 - 8
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þessi réttur er bara next level… held að hann sé einn af mínum uppáhaldsréttum.  Fyrir nokkru var ég í Svíþjóð og fékk ég samskonar rétt þar.  Það sem gerði útslagið var sósan.  Kokkurinn sagði mér það helsta sem í henni var og þegar heim var komið lagðist ég í tilraunamennsku.   Sósan er frekar þunn en þeir sem vilja hafa hana þykkari geta e.t.v. notað Maizenamjöl… ég myndi samt ekki mæla með því – það er bara allt í lagi að hún sé þunn.

Forvinna

Hægt að forsjóða kartöflurnar áður og gera sósuna fyrr um daginn. Einnig má snyrta bleikjuna og skera flökin í bita eitthvað áður.

Hráefni

  • 1½ kg bleikjuflök
  • 1, 2 – 1,5  kg kartöflur
  • Salt og pipar
  • U.þ.b. 300 g brokkólíni eða brokkólí
  • Fennel – sneitt í þunnar sneiðar með flysjara
  • 6 – 7 stk radísur – sneiddar í þunnar sneiðar með flysjara
  • 1 búnt ferskt dill (má einnig nota 1 msk af þurrkuðu dilli)

 

Graslaukssósa

  • ½ dl hvítvínsedik
  • 2 dl hvítvín
  • 1 gulur laukur – saxaður smátt
  • 3 dl rjómi
  • 50 – 80 g smjör
  • Salt og pipar
  • 1 dl graslaukur – skorinn í þunna bita

Verklýsing

Graslaukssósa – gott að byrja á sósunni

  1. Edik, hvítvín og gulur laukur sett í pott – suðan látin koma upp og hitinn lækkaður. Látið malla í pottinum með loki í 7 – 12 mínútur. Vökvinn síaður frá – magnið ætti að vera u.þ.b. 2 dl
  2. Vökvinn settur í pott og hitaður. Rjóma bætt við og kryddað með salti og pipar.  Smjörið sett í og látið bráðna – sósan tekin af hellunni – hún ætti að þykkna aðeins en hafa ber í huga að sósan á að vera þunn
  3. Graslaukur settur í allra síðast – ekki láta sósuna sjóða mikið eftir að hann er kominn i

 

Kartöflur

  1. Kartöflur soðnar (það má flysja þær fyrir eða eftir suðu). Kartöflur steiktar upp úr dilli rétt áður en fiskurinn er framreiddur

 

Bleikja og framreiðsla

  1. Ofninn hitaður í 200°C – grillstilling notuð
  2. Radísur og fennel skorið í þunnar sneiðar og  þær settar í kalt vatn
  3. Brokkólín snyrt (brokkólí skorið í hæfilega bita) og sett í sjóðandi vatn og soðið i u.þ.b. 3 – 5 mínútur (háð stærð bitanna).  Vatnið látið renna af og haldið volgu
  4. Bleikjan snyrt og roðið hreinsað aðeins með hníf.  Hvert flak skorið í bita (u.þ.b. 3 bita) og sett í ofnskúffu með bökunarpappír.  Í uppskriftinni þarf að nota tvær ofnskúffur
  5. Bitunum raðað í ofnskúffuna og roðið látið snúa niður – salti og pipar stráð yfir.  Bleikjan grilluð mjög ofarlega í ofninum í 1 – 2 mínútur
  6. Fiskurinn tekinn út og bitunum snúið við – mér gengur best að nota fingurna til að snúa þeim við en einnig má nota spaða.  Á meðan bitunum er snúið við má setja seinni ofnskúffuna inn
  7. Þegar bitunum hefur verið snúið við er grófu salti stráð yfir roðið og ofnskúffan sett aftur inn í ofn í 2 – 4 mínútur eða þangað til að bólur myndast á roðinu
  8. Vatnið látið renna af fenneli og radísum
  9. Fiskurinn tekinn út og lagður á fat.  Brokkolíni eða brokkólíbitum raðað á hvern bita – skreytt með fennel- og radísusneiðum
  10. Sósunni hellt yfir og borið fram með dillsteiktum kartöflum

Ath. Einnig er hægt að nota laxabita – þeir geta verið þykkri og þurfa því aðeins meiri grilltíma eða 3 – 5 mínútur í seinni grillun

 

Graslaukssósa

Grunnur í vinnslu…

 

Sósan í vinnslu…

 

Meðlæti 

Fennel og radísur flysjaðar

 

Soðnar kartöflurnar smjörsteiktar með dilli

 

Brokkolí eða brokkólíni soðið

 

Bleikjan matreidd

Roð hreinsað

 

og skorin í bita

 

Bleikjan grilluð – roðið látið fyrst snúa niður og snúið við

 

 

Gott að salta vel roðmegin..

 

Bleikjan ásamt meðlæti sett á fat (einnig fallegt að framreiða á disk fyrir hvern og einn)

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*