Sænskar bolludagsbollur – Semlur

Sænskar bolludagsbollur - semlor

  • Servings: 24 bollur
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Þetta er uppskrift að sænskum semlum og kemur hún frá mömmu. Þetta eru klárlega bestu bolludagsbollurnar.

Hráefni

  • 3 dl mjólk
  • 100 g smjör
  • 50 g pressuger eða 1 bréf þurrger (12 g)
  • 1 egg – við stofuhita
  • 1 dl sykur
  • ½ tsk salt
  • 9-10 dl hveiti
  • ½ tsk hjartarsalt
  • 1 tsk steytt kardimomma (má sleppa)
  • Suðusúkkulaðibitar eða sigtaður flórsykur
  • 1 egg – til að pensla bollurnar

Verklýsing

  1. Smjör brætt í potti
  2. Mjólk hellt út í og blandan látin vera ylvolg þ.e. 37°C
  3. Ger, sykur, kardimomma, salt og hjartarsalt sett í skál. Mjólkursmjörblöndunni bætt við
  4. 4 dl af hveitinu hrært saman við og eggið sett út í – hrært
  5. Afganginum af hveitinu bætt við og hnoðað
  6. Látið hefast í 10 mínútur
  7. Deiginu skipt í 4 parta. Hverjum parti skipt í 6 parta og bollur mótaðar
  8. Sett á bökunarpappír á ofnplötu. Gott að setja rakan klút (viskustykki) yfir. Látið hefast í 1 klukkustund
  9. Ofninn hitaður í 225°C (yfir- og undirhiti).  Bollurnar penslaðar með hrærðu eggi og bakað í 5 – 10 mínútur
  10. Sigtuðum flórsykri stráð yfir bollurnar eða einn súkkulaðibiti settur á eina og eina bollu og hann látinn bráðna á meðan bollan er heit


Meðlæti

Rjómi og marsipan. Marsipanið er notað eins og sulta þ.e. sett á milli. Best að rífa það niður og setja á neðri helminginn. Einnig er gott að hræra örlítið af vatni/mjólk saman við marsipanið þannig að það verði eins og mauk og bæta jafnvel fínsöxuðum möndlum saman við.

Sum börn sleppa rjómanum en þeim finnst gott að hafa súkkulaðið ofan á. Að sjálfsögðu má nota sultu í stað marsipans.

Góð ráð við gerbakstur

  • Pressuger er kælivara og fæst í flestum stórmörkuðum. Nær undantekningarlaust er hægt að ganga að því í kælinum í Fjarðarkaupum.  Þurrger fæst í öllum matvöruverslunum
  • Ef notað er pressuger er gott að mylja það í skálina, bæta hluta af vökvanum saman við og hræra þar til gerið leysist upp
  • Betra er að nota brauð- og pizzuhveiti við gerbakstur
  • Til þess að finna rétta hitastigið á blöndunni er ráð að dýfa olnboganum aðeins ofan í – ef sami hiti er á blöndunni þá er hitinn nálægt 37°C
  • Reynslan sýnir að af tvennu illu sé skárra að hafa mjólkurblönduna aðeins undir 37°C en yfir. Ef blandan er kaldari hægir það á hefingunni en of heit blanda getur eyðilagt hefinguna
  • Mikilvægt er að setja klút (viskustykki) ofan á skálina í hefingu. Betra er að hafa klútinn rakan eða spreyja yfir hann vatni úr spraybrúsa
  • Það skiptir máli að allt hráefnið sé við stofuhita. Kalt egg – beint úr ísskápnum – getur haft áhrif á hefingu
  • Látið hefast á stað þar sem ekki er of svalt eða getur verið trekkur.  Ekki hafa opna glugga nálægt deiginu eða hafa það nærri blæstri sem getur komið frá ofninum. Ef sólin skín er tilvalið að láta hana skína á klútinn. Eins má nýta hita sem kemur frá ljósi
  • Athugið að deig í hefingu þolir illa hreyfingu og hristing og er það best geymt á rólegum stað. Muna að pensla varlega

Annað

Í Svíþjóð koma ,,semlor“ í bakaríin í janúar og eru þær á boðstólnum fram í mars. Í þeim sænsku er ekki sulta, eins og við þekkjum, heldur er grafin smá hola ofan í neðri botninn á bollunni og marsipan sett þar. Á árum áður dýfðu Svíarnir semlunum ofan í heita mjólk þegar bollurnar voru orðnar nokkurra daga gamlar.  Eflaust viðgengst sú venja hjá einhverjum Svíum enn þann dag í dag.

Geymsla

Bollurnar eru bestar nýbakaðar en líka mjög fínar daginn eftir.

 

Semlur í vinnslu…

Á myndinni er notað pressuger 


IMG_0917

Gott að nota lófann til að móta bollurnar (snúa lófanum í hringi)

 


IMG_8425

 

Marsipanblanda með söxuðum möndlum og ögn af mjólk eða vatni

IMG_0994

IMG_2859

Hugmyndir að skrauti

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*