Þeytt smjör – létt og syndsamlega gott

Þeytt smjör – létt og syndsamlega gott

  • Servings: Háð magni
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Á veitingastöðum er oft boðið upp á þeytt smjör og þá með ýmsum útfræslum.  Ég hef aldrei kunnað að þeyta smjör en hef margoft heyrt talað um þeytta smjörið hennar Önnu Ólafs. Eftir nokkrar tilraunir og leiðbeiningar frá henni held ég að mér hafi loksins tekist að komast upp á lagið. Það er skemmtilegt að búa til þeytt smjör og bragðast það alveg sérstaklega vel með nýbökuðu brauði eins og súrdeigsbrauð bakað í potti.  Ekki er verra að smjörið geymist vel – það helst nánast eins í marga daga við stofuhita.  Mér finnst best að hafa aðeins af salti og ögn af pipar en það kemur örlítill karamellutónn þegar smjörið nær að brúnast aðeins í botninum þegar það er brætt.

Forvinna

Mér finnst þægilegast að bræða smjörið daginn áður, setja það í skál og láta það kólna yfir nótt. Smjörið, sem á að þeyta daginn eftir, er einnig gott að geyma úti yfir nótt svo að það sé vel mjúkt.

Hráefni

  • T.d. 100 g smjör (sem á að bræða)
  • T.d. 100 g smjör – ath. að smjörið þarf að vera við stofuhita
  • Hugmyndir að bragðefnum: Saltflögur, nýmulinn pipar, lakkrísduft, mulinn harðfiskur, kavíar, krydd, chilli eða bara það sem hverjum og einum dettur í hug

Verklýsing

  1. 100 g smjör látið bráðna í potti (hef yfirleitt ekki minna en 50 g af hvoru eða 100 g í heildina). Það þarf smá lagni við að finna rétta augnablikið þegar taka á pottinn af hellunni. Smjörið er brætt á frekar háum hita. Þegar smjörið er að bráðna getur það skvest út í allar áttir og þarf að vara sig á því (stundum finnst mér skvettast meira ef minna magn er brætt).  Þegar smjörið er bráðnað kraumar í því og það myndast hálfgerðir kristallar á yfirborðinu og síðan froða.  Á þeim tímapunkti fer að myndast litur í botninum – þá er það tekið af hellunni. Smjörið má alls ekki brenna en betra að það komi smá litur á botninum í pottinum – ef þessi ljósbrúna skán, sem myndast, er látin fylgja með kemur örlítill sætur og góður karamellukeimur af smjörinu. Gott að skoða myndbandið fyrir neðan
  2. Smjörið sett í skál og látið kólna – mér hefur reynst best að láta það standa úti yfir nótt ásamt smjörinu sem á að þeyta daginn eftir
  3. Smjörið við stofuhitann sett í skál og þeytt. Smjörinu, sem var brætt og hefur staðið úti, er bætt við og þeytt – sjá myndband
  4. Þeytta smjörið má setja beint í skál með sleif en einnig má setja það í margnota/einnota plastsprautu og búa til fallegar doppur á smjördiski. Þar sem einnota plastsprautan er ekki mjög umhverfisvæn er hún minna notuð
  5. Smjörið þolir vel að standa úti í nokkra daga

 

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*