Konfektkaka

Konfektkaka

  • Servings: 10 - 12 sneiðar
  • Difficulty: auðvelt
  • Print

Uppruni

Þessa uppskrift fékk ég hjá Dagnýju vinkonu minni.  Hún kallar hana konfektkökuna og á það vel við.  Þeir, sem eru hrifnir af Bounty, ættu að baka þessa góðu köku.  Ef uppskriftin þykir of stór er hægt að helminga hana og baka í 20 cm formi.  Fljótleg og þægileg kaka ef von er á gestum.  Ég skreyti hana stundum ef hún er ekki nógu falleg hjá mér – þá er gott að nota kókosmjöl og jarðarber.

Forvinna

Þessa köku má alveg baka daginn áður og er hún jafnvel betri daginn þar á eftir.  Þá er hún geymd í kæli og ekkert sett yfir hana.

Hráefni

Botn

  • 4 eggjahvítur
  • 140 g flórsykur
  • 140 g kókosmjöl

Krem

  • 100 g smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 60 g flórsykur
  • 4 eggjarauður

Verklýsing

Botn

  1. Ofninn hitaður í 140°C (blástur) eða 150°C (yfir- og undirhiti)
  2. Eggjahvíturnar eru stífþeyttar. Flórsykri og kókosmjöli bætt varlega út í
  3. Bakað í 24 – 25 cm kringlóttu formi í 40 mínútur eða þar til kakan verður fallega gulbrún. Látin kólna

 

Krem

  1. Smjör og súkkulaði brætt saman í skál yfir vatnsbaði á lágum hita (skál sett ofan á pott með vatni)
  2. Eggjarauðurnar hrærðar með flórsykri þar til þær eru ljósar og léttar
  3. Súkkulaði- og smjörblöndunni hellt saman við – blandað saman með sleif
  4. Kremið látið kólna aðeins og sett yfir kökuna þegar það er farið að þykkna.  Ef kremið er of heitt, þegar það er sett á, rennur það of mikið út yfir brúnirnar

Meðlæti

Kakan er góð ein og sér en einnig með þeyttum rjóma.

Geymsla

Kakan er geymd í kæli og er ekki síðri daginn eftir eða tveimur dögum eftir bakstur.

Botn í vinnslu:

 

Krem í vinnslu:

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*