Kjúklingur með Ritzkexi og hvítlaukssósu

Kjúklingur með Ritzkexi og hvítlaukssósu - einfalt og fljótlegt

  • Servings: 4
  • Difficulty: meðal
  • Print

Uppruni

Um daginn datt mér í hug að prófa nýja útgáfu af kjúklingi, Ritzkex útgáfuna. Rétturinn vakti mikla lukku meðal barnanna og er ég reglulega beðin um að elda þennan rétt. Hann er bæði einfaldur og fljótlegur og passar með mörgu.  Stundum velti ég kjúklingnum fyrst upp úr grískri jógúrt/ab-mjólk en alls ekki alltaf. Kosturinn við það er að  Ritzkexið tollir aðeins betur við bringurn. Mér finnst best að borða ferskt og gott salat með en hinir á heimilinu vilja eitthvað meira. Við höfum því verið með ofnsteikta kartöflubita, ofnsteiktar sætar kartöflur, kúskús eða hrísgrjón.  Sósan er alveg ómissandi.

Forvinna

Sósuna má búa til eitthvað áður.

Hráefni

Hvítlaukssósa       

  • 2 – 3 msk olía
  • 2 – 3 hvítlauksrif – pressuð
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk hvítvínsedik
  • Salt og pipar
  • 1 msk majónes
  • 1 – 2 dl sýrður rjómi

Kjúklingur

  • U.þ.b. 800 g kjúklingabringur eða kjúklingalæri (einnig hægt að nota kjúklingalundir eða leggi)
  • Jógúrt/grísk jógúrt eða ab-mjólk (má sleppa)
  • 20 – 30 Ritzkex – mulin í morteli eða matvinnsluvél
  • Parmesanostur – rifinn
  • Sambland af olíu og smjöri til steikingar
  • Salt og pipar

 

Verklýsing

Sósan

  1. Öllu hráefni blandað saman í skál og hrært saman. Muldum pipar stráð yfir

 

Kjúklingur

  1. Ofninn hitaður í 180°C (blástur)
  2. Kjúklingnum velt upp úr Grískri jógúrt/ab-mjólk (má sleppa). Bitunum síðan velt upp úr Ritzkex-mulningi.  Olía og ögn af smjöri (gefur gott bragð) hitað á pönnu og bringurnar steiktar á öllum hliðum þannig að fallegur litur komi á þær
  3. Kjúklingabringurnar settar í eldfast mót, saltað og piprað. Parmesanosti stráð yfir og eldað í ofninum í u.þ.b. 20 – 25 mínútur (best að setja kjöthitamæli í miðja bringu og stilla á 77°C)

 

Meðlæti: Hrísgrjón, kúskús, kartöflumús, ofnsteiktar, sætar kartöfur eða ofnsteiktir kartöflubitar.  Ferskt og brakandi salat á vel við.

Kjúklingi dýft í gríska jógúrt og svo í ritzkexkurlið

 

Kjúklingabringur án jógúrts

 

Hvítlaukssósa og kjúklingur

 

Gott að setja hitamæli í bringurnar til að vera viss að hún sé gegnumsteikt

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*